LJÓSMÓÐIR, FRAMKVÆMDASTJÓRI
Emma Marie Swift, RM, PhD
Emma Marie Swift hefur áralanga reynslu af heimafæðingum og ljósmæðraþjónustu á fæðingarheimili og hefur starfað á þessum vettvangi bæði hérlendis og erlendis síðan 2011. Emma hefur veitt fjölskyldum samfellda þjónustu og sinnt meðgönguvernd, fæðingarhjálp og heimaþjónustu í sængurlegu. Emma hefur þróað fjölda námskeiða um undirbúning fæðingar og foreldrahlutverkið með sérstakri áherslu á upplýst samþykki, eflingu sjálfsöryggis og minni fæðingarótta.
Emma er sérfræðingur í eðlilegu fæðingarferli og hefur skrifað fjölda ritrýndra greina um barneignarferlið og auk þess doktorsritgerð sem ber heitið Efling eðlilegra fæðinga á tímum tæknivæðingar. Hún hefur einnig starfað á stærsta fæðingarstað Íslands, Landspítala og setið þar í Fagráði ljósmæðra.
Emma er dósent við námsbraut í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands þar sem hún hefur umsjón með kennslu og leiðbeiningu ljósmæðranema og leiðir meðal annars rannsóknarverkefni um fæðingarupplifun. Hún er einnig í ritstjórn Ljósmæðrablaðsins og Journal of Sexual and Reproductive Healthcare.
Emma sinnir ljósmóðurstörfum á Fæðingarheimili Reykjavíkur og er framkvæmdastjóri Fæðingarheimilisins.
“Ljósmóðurstarfið er hugsjónastarf – sem hvorki byrjar né endar. Það umlykur mig alla daga – og mótar allar mínar ákvarðanir og drauma. Ég held ég hafi þó aldrei ákveðið að verða ljósmóðir – heldur fann starfið mig. Því þegar ég áttaði mig á því að ljósmóðurstarfið snýst fyrst og fremst um að styðja konur í að finna þann styrk sem nú þegar býr innra með þeim, þá áttaði ég mig einnig á því að þetta væri það sem ég vildi gera. Ég vissi þá að ljósmóðurstarfið yrði mitt framlag til jafnréttisbaráttu kvenna. Mitt framlag til að styrkja konur – og til að styrkja fjölskyldur sem eru að stíga sín fyrstu skref á þessu ferðalagi sínu um lífið.
Nú mörgum árum seinna þegar ég fylgist með konu í fæðingu eflast og styrkjast í þeirri trú að hún sé við stjórnvölinn og að henni finnist hún umvafin kærleika og trausti – þá styrkist ég sjálf í þeirri trú að mitt stærsta hlutverk sem ljósmóðir sé að búa til umhverfi þar sem hún geti blómstrað, þar sem hún þorir að virkja sinn innri kraft og trúir því að hún geti tekist á við allar þær áskoranir sem mæta henni.
En þor’ ég - vil ég - get ég?
Já, ég þori, get og vil!”
— Emma Marie Swift