Meðgönguvernd á Fæðingarheimili Reykjavíkur
Boðið er upp á meðgönguvernd á Fæðingarheimili Reykjavíkur á vikum 34, 36, 38, 40 og 41. Meðgönguvernd hjá okkur er í boði fyrir þær fjölskyldur sem hyggjast fæða barnið sitt á fæðingarheimilinu. Lesa má meira um fæðingu á fæðingarheimilinu hér.
Flestir verðandi foreldrar byrja í meðgönguvernd á heilsugæslustöð í sínu hverfi og færa sig svo yfir á fæðingarheimilið eftir 31. viku. Meðgönguvernd á Fæðingarheimili Reykjavíkur er niðurgreidd af Sjúkratryggingum Íslands og kostar ykkur því ekki neitt!
Við bjóðum upp á tvo möguleika í meðgönguvernd á Fæðingarheimili Reykjavíkur á vikum 34-40. Þið getið annað hvort valið að koma og hitta ljósmóður í einrúmi eins og hefðbundið er á heilsugæslustöðvum eða þið getið valið að taka þátt í hópmeðgönguvernd.
Þið getið bókað ykkur í meðgönguvernd hér!
Í hópmeðgönguvernd hittið þið tvær ljósmæður í hóp með öðrum verðandi foreldrum sem eiga von á barni á svipuðum tíma og þið - og ætla sér líka að fæða barnið sitt á fæðingarheimilinu. Hópurinn hittist í einn og hálfan tíma í senn og fara fram umræður, fræðsla og stuðningur. Neðar á síðunni má sjá umræðuefnin í hverjum hóp.
Hver kona/par fara út úr hópnum í smá stund til að hitta ljósmóður í einrúmi til að gera mælingar og þar gefst líka tækifæri fyrir spjall sem fólk vill frekar eiga í einrúmi með ljósmóður.
Hópmeðgönguvernd hentar bæði þeim sem eiga von á sínu fyrsta barni og þeim sem hafa átt barn áður.
Í hvert skipti sem þið komið í meðgönguvernd getið þið valið hvort þið viljið koma í einrúmi eða í hóp.
Athugið! Meðgönguvernd á viku 41 er alltaf í einrúmi með ljósmóður. Þá bjóðum við upp á belgjalosun, slökun, rebozo og nálastungu og þrýstipunktanudd. Við förum einnig yfir góðar stellingar og æfingar sem geta ýtt undir að fæðing fari eðilega af stað.
Umræðuefni í hópmeðgönguvernd
Fyrsti tími
Hreyfingar fósturs í móðurkviði
Óþægindi í lok meðgöngu og bjargráð
Hreyfing, svefn og hvíld á meðgöngu
Hvað gerist á fyrsta, öðru og þriðja stigi fæðingar?
Hvernig veit ég að fæðing er hafin?
Hvenær er best að hringja í ljósmóður?
Hvenær er best að koma á fæðingarstað?
Annar tími
Fyrstu klukkustundirnar eftir fæðingu: húð við húð, brjóstagjöf, hvíld og tengslamyndun
Vigtun og mælingar, K-vítamín
Fylgjufæðingin
Brjóstagjöf - hvað þarf ég að vita og hvernig get ég best undirbúið mig?
Heimaþjónusta ljósmæðra og þjónusta brjóstagjafaráðgjafa
Ungbarnavernd
Líðan eftir fæðingu: Sængurkvennagrátur og fæðingarþunglyndi
Þriðji tími
Fæðing á Fæðingarheimili Reykjavíkur - hverju er gott að pakka og hafa með í fæðingu?
Fæðingarplan
Bjargráð í fæðingu og verkjameðferðir, djúpslökun
Flutningur á annað þjónustustig í fæðingu
Gangsetning - belgjalosun, nálastunga, þrýstipunktanudd, djúpslökun, rebozo, stellingar
Keisaraskurður, áhaldafæðingar og önnur inngrip í fæðingu
Fjórði tími
Fyrstu dagarnir eftir fæðingu
Hvernig getum við undirbúið okkur sem best? Heimsóknir, stuðningur, heimaþjónusta
Foreldrahlutverkið
Svefn og næring (móðir og barn)
Félagslegt stuðningsnet
Kynlíf og parasambandið
Hópmeðgönguvernd er fyrirkomulag sem boðið er upp á í ýmsum löndum í kringum okkur og hefur verið mjög vinsæll kostur meðal verðandi foreldra. Fyrirkomulagið var prófað árið 2018 á Íslandi og hafa verið skrifaðar tvær greinar um hópmeðgönguverndina á Íslandi.
Verðandi foreldrar voru almennt mjög ánægðir með að taka þátt í hópmeðgönguvernd, höfðu fleiri tækifæri til þess að fá fræðslu og stuðning - og auk þess gefast tækifæri til að kynnast öðrum verðandi foreldrum sem eru í sömu sporum og þið.
Þið getið smellt á myndirnar hér fyrir neðan af ritrýndu greinunum sem hafa verið birtar um hópmeðgönguvernd á Íslandi - og hafa sýnt verulega góða reynslu af fyrirkomulaginu hér á landi.
Hvað er annars gert í meðgönguvernd?
Í meðgönguvernd er rætt um líðan og heilsufar, veitt viðeigandi fræðsla og væntingar til fæðingarinnar ræddar. Í hverri skoðun er blóðþrýstingur mældur og athugað hvort prótein sé í þvagi. Hlustað er eftir fósturhjartslætti og stærð legsins mæld frá lífbeini að legbotni. Frá 36 vikna meðgöngu er lega barnsins metin. Þarfir beggja foreldra eru metnar í hverri skoðun og við leggjum mikla áherslu á fræðslu og ráðgjöf. Má þá nefna fræðslu um líðan, mataræði, hreyfingu, þá þjónustu sem stendur verðandi foreldrum til boða, val á fæðingarstað, undirbúning fyrir fæðinguna, bjargráð í fæðingu, brjóstagjöf, sængurlegu og fleira. Boðið er upp á ómskoðanir og aðrar fósturrannsóknir eftir þörfum í samstarfi við Fósturgreiningardeild Landspítalans. Í þeim fjórum til fimm vitjunum á meðgöngunni vinnur ljósmóðirin markvisst að því að kynnast verðandi foreldrum og komast að þörfum þeirra, til að geta veitt þeim þann stuðning sem þau þurfa og styðja við þau í fæðingunni.