Fæðingarheimili Reykjavíkur býður upp á samfellda og einstaklingsmiðaða þjónustu frá kynþroska til breytingaskeiðs. Þú getur leitað til okkar á meðgöngu og í fæðingu, fengið heimaþjónstu og ráðgjöf um brjóstagjöf og einnig fengið ráðgjöf um breytingaskeið.

Hjá okkur verður fjölbreytt starfsemi sem styður við heilbrigði fjölskyldunnar allrar, svo sem fjölskylduráðgjöf, jóga og fleira. Á einum stað getur þú nálgast þjónustu sem þú getur verið viss um að sé veitt af virðingu - frá teymi ljósmæðra og annarra fagaðila sem hafa sett sér það markmið að veita góða fræðslu og þjónustu á þínum forsendum.

Hvernig varð það til - og af hverju?

Í nokkurn tíma létum við okkur dreyma um fæðingarheimili þar sem konur og fjölskyldur þeirra fá persónulega, samfellda þjónustu frá ljósmóður sem styrkir þær og eflir.

 

Okkar sýn

Fæðingarheimili Reykjavíkur er fyrsta flokks fæðingarheimili. Þar geta konur nálgast fjölbreytta þjónustu því til viðbótar við barneignarþjónustu veita ljósmæður Fæðingarheimilisins ráðgjöf fyrir þungun, ráðgjöf um getnaðarvarnir og breytingaskeiðið.

 
Photo23_23.jpg

Fæðingarheimili Reykjavíkur -þá og nú

Mikil ánægja var meðal kvenna og fjölskyldna þeirra með Fæðingarheimili Reykjavíkur og enn þann dag í dag tala konur hlýlega til starfseminnar og þeirrar alúðar sem gætti þar í öllu starfi. Við hyggjumst taka við keflinu og gera Fæðingarheimili Reykjavíkur aftur að þeim mikilvæga stað sem það átti í huga og hjörtum barnshafandi kvenna og nýrra foreldra.

 

Öryggi og útkoma mæðra og barna

Ljósmæðurnar hafa fengið tækifæri til að heyra óskir verðandi foreldra, þekkja vel sögu þeirra og geta því brugðist við þeim aðstæðum sem upp koma í samvinnu við foreldra. Þetta eykur öryggi eins og hefur verið sýnt fram á í fjölda mörgum rannsóknum. 

 
faeding.PNG

Áralöng reynsla stofnenda við ljósmóðurstörf og rannsóknir er sérstaða Fæðingarheimilis Reykjavíkur

Ráðgjafar okkar

Ráðgjafar Fæðingarheimilisins eru Dr. Ólöf Ásta Ólafsdóttir, prófessor í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands, Dr. Helga Gottfreðsdóttir prófessor og námsbrautarstjóri ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands og Elínborg Jónsdóttir, fyrrverandi yfirljósmóðir Fæðingarheimilis Reykjavíkur sem var lokað árið 1995, Dr. Alexander Smárason forstöðulæknir á kvennadeild Sjúkrahússins á Akureyri, Dr. Ívar Meyvantsson heilbrigðisverkfræðingur, Daníel Freyr Atlason stofnandi Döðlur studio – hugmynda- og hönnunarfyrirtækis og Eva Dögg Guðmundsdóttir markaðsstjóri Greiðslumiðlunar ehf.