Fjölskylduspjall

Við erum með samverustund fyrir nýja foreldra einu sinni í mánuði. Foreldrar fá tækifæri til að spjalla og hitta aðra foreldra með börn á svipuðum aldri. Við erum með garð fyrir aftan húsið þar sem börn geta sofið í vagni og erum einnig með dýnur og teppi inni. Samverustundin hentar vel fyrir foreldra sem eiga börn undir 6 mánaða aldri.

Fjölskylduspjallið er ekki með formlega dagskrá en á staðnum er ljósmóðir sem tekur þátt í umræðum og fræðslu. Við hvetjum þá sem vilja til þess að deila sögum af fæðingu, brjóstagjöf, sængurlegu eða foreldrahlutverkinu - en það er að sjálfsögðu líka velkomið að koma í samverustundina án þess að vilja deila reynslusögum. Við fáum stundum utanaðkomandi fræðslu í samverustundina og munum auglýsa það sérstaklega.

Við hvetjum einnig verðandi foreldra á þriðja þriðjungi meðgöngu til að koma í samverustundina því það getur verið mjög lærdómsríkt að heyra sögur, sjá litlu krílin og fá tækifæri til að spyrja spurninga.

Það kostar ekkert að mæta á fjölskylduspjall en við biðjum ykkur að skrá þátttöku.