Fæðingarheimili Reykjavíkur
Fréttabréf Nr.1
Heimili Fæðingarheimilisins
Það gleður okkur mikið að geta sagt frá því að við höfum fundið Fæðingarheimilinu okkar stað! Við höfum leitað síðan í sumar að hinu fullkomna húsnæði - sem myndi uppfylla allar okkar kröfur um fallegt, bjart húsnæði sem umvefur fólk í kærleika en á sama tíma stenst ströngustu kröfur um fagmennsku og öryggi. Þetta fundum við með góðri hjálp og viljum við þakka öllum þeim sem gáfu okkur góðar upplýsingar um húsnæði sem gæti komið til greina. Sérstakar þakkir fá Þorpið- vistfélag og Berglind Hálfdánsdóttir.
Staðsetningin er frábær, Hlíðarfótur 17 - í nágrenni við lífið í miðbænum, háskólasamfélagið og Kvennadeild Landspítalans. Á næstu vikum munum við laga húsnæðið að starfsemi fæðingarheimilisins. Þar verður salur fyrir námskeið, fæðingarstofur og meðferðarherbergi þar sem verður fjölbreytt starfsemi. Að auki höfum við fengið vel valda einstaklinga til okkar í samstarf. Þar má nefna Steinunni Zophoníasdóttur, ljósmóður, sem mun vera með ráðgjöf um breytingaskeiðið og Paulinu sem er pólskumælandi doula og kennir námskeið um fæðinguna á pólsku. Við hlökkum til að stækka hópinn enn frekar og bjóðum þeim sem hafa áhuga á að vera með okkur, leigja hjá okkur herbergi eða salinn fyrir námskeið, jóga eða annað slíkt, að hafa samband við okkur sem fyrst. Takmörkuð pláss í boði sem fyllast fljótt.
Þið getið fylgst með framkvæmdunum á Instagramsíðu Fæðingarheimilisins
Fyrstu námskeiðin fara vel af stað
Fyrstu námskeiðin okkar hafa farið vel af stað. Við höfum hitt verðandi foreldara í litlum hópum í sal dansskólans Óskandi á Eiðistorgi. Námskeiðin okkar eru í notalegu umhverfi og litlum hópum því við viljum gefa gott færi á umræðum og spurningum frá þátttakendum. Við nýtum okkur jógadýnur, bolta, teppi og kósí stóla til þess að breyta reglulega um stellingar og æfa okkur fyrir fæðinguna.
“Okkur fannst við hafa haft meira gagn af námskeiðinu en við höfðum gert ráð fyrir. Okkur fannst það mjög ítarlegt og veitti það innsýn í hluta fæðingarferlisins sem við höfðum alls ekki íhugað. Eftir á að hyggja, núna þegar við erum með barnið okkar í fanginu, finnst mér að stuðningsaðili minn hafi verið betur undirbúinn og það sem hann lærði gerði mér kleift að upplifa jákvæðari reynslu en ég hefði annars verið fær um. Hann gat hjálpað mér í gegnum ferlið með svo miklu sjálfstrausti. Ljósmæðurnar sem leiddu námskeiðið kunnu efnið mjög vel og gátu miðlað lærdómnum á mjög áhrifaríkan hátt. Við fórum af námskeiðinu með svo mikla þekkingu á ekki aðeins við hverju má búast heldur hvernig við getum tekist best á við bæða það neikvæða og jákvæða við alla fæðingarupplifunina.”
- Umsögn móður sem kom á fæðingarfræðslunámskeið
Hvert námskeið kostar 15 þúsund krónur og geta verðandi foreldrar fengið kvittun og þannig endurgreiðslu frá stéttarfélagi. Konur sem ekki geta greitt fyrir námskeiðið og eru ekki í stéttarfélagi eru einnig hvattar til að vera í sambandi við okkur, því við bjóðum alltaf einhver pláss á námskeiðum konum að kostnaðarlausu. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðunni okkar- sem er á íslensku, ensku og pólsku.
Næstu námskeið:
Fæðingarfræðsla á ensku, íslensku og pólsku
Námskeið um fyrstu dagana eftir fæðingu, aðlögun að foreldrahlutverkinu og brjóstagjöf - á íslensku og ensku
Fjarnámskeið á ensku um fæðingu og brjóstagjöf
Kynntu þér næstu námskeið og skráðu þig hér - Upplýsingar um námskeið
Jákvætt hugarfar en raunhæfar væntingar
Námskeiðin okkar um fæðinguna fjalla um bjargráð og hvernig við getum nýtt okkur bjargráðin í fæðingu. Við æfum slökun og ýmsar stellingar sem verðandi foreldrar geta nýtt sér við lok meðgöngu og í fæðingu. Einnig ræðum við um þegar plönin breytast og hversu mikilvægt er að vera opin fyrir þeim möguleikum sem þetta ferðalag er. Námskeiðin okkar hafa nýst fjölbyrjum jafnt sem frumbyrjum þar sem við erum ekki einungis að fara í gang fæðingar eða lífeðlisfræði, heldur frekar að opna hugann fyrir þeim möguleikum sem fólk hefur til að takast á við þessa áskorun. Við viljum auka sjálfsöryggi og jákvætt hugarfar - um leið og við erum með raunhæfa væntingastjórnun. Við höfum sett eina fæðingarsögu á vefinn okkar - sem lýsir þessu einmitt svo vel.
Tíminn eftir fæðinguna
Námskeiðið um tímann eftir fæðinguna fjallar um brjóstagjöf, hegðun nýburans, líðan móður og aðlögun að foreldrahlutverkinu. Við höfum fundið að foreldrar sem fara á námskeiðin okkar eru betur undirbúin fyrir þá áskorun sem fyrstu dagarnar geta verið, því væntingar þeirra um svefn, brjóstagjöf og líðan eftir fæðingu hafa verið raunsærri og þau betur undirbúin.
Heimaþjónusta
Emma og Embla sinna heimaþjónustu fyrir nýja foreldra. Þær hafa sinnt heimaþjónustu bæði fyrir foreldra sem hafa sótt hjá okkur námskeið, foreldra sem þær hafa sinnt áður í fæðingu eða heimaþjónustu og einnig nýjum skjólstæðingum sem fætt hafa börn sín á Landspítala. Fljótlega bætast ljósmæðurnar Edythe og Stefanía við hópinn og fara að sinna heimaþjónustu.
Vilt þú gerast styrktaraðili?
Mörg ykkar hafa spurt hvernig þið getið stutt við opnun Fæðingarheimilis Reykjavíkur. Við erum ykkur svo innilega þakklát fyrir áhugann og stuðninginn - sem hefur verið okkur mjög hvetjandi. Með þínum stuðningi hjálpar þú okkur að búa til samfélag sem styrkir fjölskyldur á meðgöngu, í fæðingu og þegar þau stíga sín fyrstu skref í foreldrahlutverkinu. Þú getur styrkt okkur með ýmsum leiðum. Allt frá kaupum á sérstökum vörum, gjöfum á húsgögnum, plöntum eða listaverkum, gjafakortum til peningagjafa.
Framlag styrktaraðila við stofnun Fæðingarheimilisins verður gert sýnilegt á staðnum og í kynningarefni.
Fæðingar á Fæðingarheimilinu
Við höfum fengið fyrirspurnir frá verðandi foreldrum sem hafa áhuga á því að fæða á Fæðingarheimili Reykjavíkur og hlökkum við mikið til að geta nú tekið á móti þeim í viðtal. Fæðing á Fæðingarheimili Reykjavíkur hentar þér ef:
þú ert hraust og meðgangan hefur verið án áhættuþátta
fæðing hefst þegar meðgöngulengd er milli 37-42 vikur
þú gengur með eitt barn sem er í höfuðstöðu
þú vilt fá persónulega þjónustu frá ljósmæðrum sem þekkja þig og þínar óskir
Hægt er að senda okkur tölvupóst á info@faedingarheimilid.is til að komast á lista hjá okkur og höfum við samband um leið og við hefjum viðtöl.
Ýmsir fræðslupistlar
Við höfum sett inn ýmsa fræðslupistla á heimasíðuna okkar. Nú þegar eru komnir pistlar um undirbúning fyrir fæðingu, bætiefni á meðgöngu, upplýst val kvenna í barneignarferlinu, heimkomu með nýfætt barn, hreyfingu á meðgöngu og næringu á meðgöngu. Væntanlegir pistlar eru m.a. um grindarverki, samdrætti og sinadrætti á meðgöngu og verða þeir unnir í samvinnu við 1.árs nema í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands.
Ljósmæður Fæðingarheimilis Reykjavíkur