LJÓSMÓÐIR
Halla Björg Lárusdóttir, RN, RM
Halla hefur 19 ára reynslu af ljósmæðrastörfum, hvort tveggja í Bandaríkjunum og síðustu 13 ár á Landspítalanum. Halla hefur víðtæka reynslu og hefur starfað lengst af við fæðingarhjálp en einnig á sængurlegudeild, starfsmannaheilsuvernd og undanfarin ár á Göngudeild mæðraverndar og fósturgreiningar.
Í starfi sínu á Landspítalanum, stærsta fæðingarstað Íslands, hefur Halla komið að ýmsum sérverkefnum. Hún hefur tekið viðtöl við foreldra í teymi Ljáðu mér eyra þar sem hún aðstoðar foreldra við úrvinnslu erfiðrar fæðingarreynslu og hefur sinnt og haft umsjón með kennslu um viðbrögð við bráðatilfellum í barneignarferlinu fyrir starfsfólk fæðingarþjónustu Landspítalans.
Halla er stundakennari við námsbraut í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands og hefur kennt fæðingafræðslunámskeið síðastliðin 5 ár.
Halla er yogakennari og hefur kennt jóga samhliða ljósmóðurstörfum síðastliðið ár. Hún hefur sótt ýmis yogakennaranámskeið og má þá nefna Baptiste Power yoga, Yin Yoga, Yoga Nidra og meðgöngujóga. Halla hefur sótt leiðbeinendanámskeið í aðferðinni Birth without fear og er mjög umhugað að konur geti átt góða upplifun af fæðingunni sinni og vill markvisst vinna að því að valdefla konur og hjálpa þeim að finna verkfæri til að þær geti farið sjálfsöruggar inn í fæðinguna með trú og traust á eigin líkama.
Halla sinnir ljósmóðurstörfum og kennir jóganámskeið fyrir verðandi og nýbakaða foreldra á Fæðingarheimili Reykjavíkur.
“Þegar ég var 17 ára fékk ég sumarvinnu á fæðingagangi. Þar vann ég sem aðstoðarstúlka ljósmæðra, ég aðstoðaði við fæðingar, vigtaði fylgjur og börn, og var með ljósmæðrunum í öllum þeim verkefnum sem þær tóku sér fyrir hendur á vaktinni. Þarna vann ég í þrjú sumur og að þeim tíma loknum fannst mér að ég gæti tekið á móti barni! Þarna kviknaði neistinn og ég vissi að mig langaði til að verða ljósmóðir.”
-Halla Björg