Fósturhreyfingar

Ein helsta staðfesting á því að líf sé að vaxa og dafna innra með þér eru hreyfingar hjá barninu þínu. Hreyfingar hjá barninu í móðurkviði hjálpa þér að tengjast og kynnast barninu þínu á meðgöngunni og gefa þér tækifæri til að vera í nánum tengslum við barnið þitt. Þannig lærir þú að þekkja barnið þitt og hreyfingamynstur þess. Þar að auki fær hitt foreldrið líka tækifæri til þess að upplifa hreyfingar barns ykkar að utan frá. Það getur verið dásamlegt og styrkjandi fyrir verðandi foreldra að finna saman fyrir hreyfingunum og jafnvel þreifa eftir einhverjum útlimum eins og til dæmis litlum fæti eða hendi. 

Fyrstu hreyfingarnar sem þú finnur fyrir eru eins og loftbólur eða fiðrildi í maganum. Þegar barnið svo stækkar og þroskast, breytast þessar loftbólur í greinilegri spörk og aðrar hreyfingar. Með tímanum byrjar þú svo að þekkja hreyfingarnar hjá barninu þínu. Stundum hreyfir barnið sig til dæmis meira á einum tíma sólarhrings en öðrum en allt er þetta mismunandi eftir hverju og einu barni. Hvert og eitt barn er einstakt. 

Það er hægt að gera æfingar til að læra að þekkja hreyfingamynstur hjá barninu þínu betur. Þetta eru núvitundaræfingar sem eru kallaðar á ensku mind-fetalness æfingar en þá fylgist þú með hreyfingum barnsins þíns frá 28. viku meðgöngu í 15 mínútur á hverjum degi þegar barnið þitt er vakandi. Með þessu móti lærir þú að finna og þekkja eðli, styrk og tíðni hreyfinga hjá barninu þínu. Við hvetjum þig til að prófa! Þú getur lesið meira um þessar æfingar hér!

Algengast er að finna fyrir fyrstu hreyfingum hjá barninu þínu á milli 16. og 20. viku meðgöngunnar. Eftir það ættu hreyfingarnar að aukast fram að 32. viku og haldast þannig út meðgönguna. Þegar það fer svo að styttast í fæðinguna geturðu skynjað hreyfingarnar hjá barninu þínu með breyttum hætti vegna þess að barnið byrjar að færa sig neðar í grindina og skorðar sig þar en þótt hreyfingarnar breytast þá minnka þær/fækkar þeim ekki. Á þessum tíma hefur barnið líka minna pláss til að hreyfa sig sem takmarkar hreyfingu útlima að einhverju leyti. 

Undir lok meðgöngunnar byrja samdrættir að aukast sem getur haft þau áhrif að þú finnir ekki jafn vel fyrir hreyfingum barnsins þíns eins og áður. Þú finnur hreyfingarnar hjá barninu best þegar þú ert í hvíld og liggur út af en þú finnur minna fyrir þeim ef þú stendur upprétt og ert upptekin við að sinna daglegum störfum lífsins. 

Hreyfingar hjá barninu eru besta merkið um að því líði vel og því gjarnan notaðar sem viðmið um líðan barns. Eðlilegar hreyfingar hjá barni benda til góðrar virkni á ýmsum líffærakerfum barnsins eins og til dæmi hjarta- og æðakerfi, taugakerfi og stoðkerfi. Algengasta ástæðan fyrir því að konur finni fyrir minnkuðum hreyfingum hjá barni er vegna þess að barnið er að hvíla sig en barn hvílir sig 90% sólarhringsins en hreyfir sig 10% hans. Ef þú upplifir að það hafa orðið breytingar á hreyfingum barnsins þíns gæti verið gagnlegt að gera eftirfarandi:

  •  Koma þér fyrir í ró og næði

  •  Fá þér eitthvað kalt að drekka og borða

  •  Anda djúpt inn og út og reyna slaka á eins og hægt er

  •  Leggjast á hliðina

  • Telja hvað það tekur langan tíma fyrir barnið að hreyfa sig tíu sinnum 

  •  Fylgjast með því hvernig það hreyfir sig

Til hreyfinga teljast spörk og hnoð en ekki hiksti. Þú getur verið róleg ef þú finnur fyrir tíu hreyfingum á innan við tveimur klukkustundum og barnið heldur áfram að hreyfa sig eins og þú þekkir. Ef hreyfingarnar eru minni en þú ert vön er mikilvægt að þú hafir samband við þína ljósmóður í mæðravernd því minnkun á hreyfingum hjá barni getur bent til þess að fylgjast þurfi betur með barninu þínu. Mundu að þú þekkir barnið þitt best og því hvetjum við þig til að hlusta á þitt eigið innsæi. Ef þetta gerist utan dagvinnutíma ráðleggjum við þér að leita til Meðgöngu- og sængurlegudeildar Landspítala í síma: 543-3220. Ef þú býrð á landsbyggðinni leitar þú til þinnar heilbrigðisstofnunar í vaktsíma: 1700. 

Ágústa Gísladóttir, hjúkrunarfræðingur og nemi í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands

Unnið í samstarfi við ljósmæður Fæðingarheimilis Reykjavíkur

Previous
Previous

Grindarverkir á meðgöngu

Next
Next

Samdrættir á meðgöngu